Leiknir R. 1-0 ÍR

Sveitin mín heitir Breiðholt

Það var hátið í bæ í 109, og öllu Breiðholtinu, þann 18. maí frá 11:30, þegar Axel Kári opnaði fan zone-ið í Skógarselinu og fíraði upp í grillinu. Það var margt um manninn og það var hrikalega jákvæður og góður andi yfir mannskapnum enda Breiðholtsslagurinn framundan. Margir sem maður hefur hreinlega saknað að sjá á fótboltaleikjum. En núna erum við mættir í alvöru deild og á grasvöllinn okkar fagra. Sem getur bara þýtt eitt, fleiri stuðningsmenn.

 

Líkt og stendur hér að ofan var grillið heitt en hægt var að fá sér borgara, gos, einn (jafnvel fleiri) kaldann, ÍR húfu og derhúfu, sælgæti og margt fleira. Margir fóru í pílu og borðtennis. Aðrir sötruðu bjórinn og spjölluðu um allt og ekkert.

 

Þegar hálftími var í leik var haldið upp í efra Breiðholt. ÍR Diehards voru mættir í nýju stuðningsmannatreyjurnar, gamlar fótboltabullur voru mættar að skóla nýju kynslóðina til í stúkunni. Við áttum svo sannarlega stúkuna frá fyrstu mínútu. Gæsahúð að sjá hvíta bláa hjartað slá svo fast í stúkunni. 

 

Reyndar fyrir leik gerðist eitt mjög gott. Leiknismenn spila alltaf lagið Ghetto eftir Elvis Presley þegar liðin eru að labba inn á. Væntanlega að reyna að búa til einhverja YNWA stemningu. Það gekk ekki betur en það að Alexander Ágúst, sá allra besti, öskraði á Leiknismennina og bað þá að þegja. Sekúndu seinna öskraði hann: ÍR! Allir tóku undir og það heyrðist ekki í þessu Ghetto lagi. Ekki einu sinni í útsendingunni, eða svona varla. Það var tekið Stórvelda-chantið og áfram sungið og trallað. Það var vinsælt að syngja um stöðu Leiknis í deildinni til að byrja með.

 

Það vakti athygli fyrir leik að Alli Kostic og Stebbi Páls voru hvorugir í byrjunarliðinu. Stebbi á bekknum, eitthvað tæpur, en Alli utan hóps, meiddur. Renato og Hákon tóku miðjuna. Guðjón fór á vinstri kantinn en Bergvin, sem var góður að mér fannst í leiknum, fór upp á topp.

 

Leikurinn byrjaði. Það var mikil orka í liðinu þessar fyrstu mínútur og það var alveg augljóst hvaða lið var án stiga og hvaða lið var ósigrað í fyrstu leikjunum. Við fengum nokkrar hornspyrnur og tókum nokkur skot þessar upphafsmínútur. Þetta var grasleikur, sá fyrsti á Leiknisvellinum í ár. Þetta var mjög gæðalítill leikur, kannski spilaði grasið þar eitthvað inn í.

 

Fyrstu 15 mínútur leiksins voru góðar hjá okkar mönnum. Eða við vorum allavegana betri en Leiknismenn. Síðan eftir það er eitthvað sem ég vil helst ekki hugsa aftur um. Mjög leiðinlegur leikur og lítið að gerast eftir það. Leiknismenn skoruðu eina mark leiksins um miðjan fyrri hálfleik. Mjög scrappy mark en margir vildu fá rangstöðu á vellinum en svo komst í ljós að skotið fór í varnarmann og þaðan til leikmann Leiknis sem skoraði. Ekkert sem Villi eða neinn gat þannig séð gert í þessu. Ógeðslega týpiskt mark að fá á sig.

 

Seinni hálfleikurinn var ekkert skárri. Það meira að segja byrjaði að kólna aðeins en stemningin og yfirburðirnir hjá ÍR-ingunum úr stúkunni hættu ekkert. Ekkert leit út fyrir að við værum að fara að jafna þetta en til að bæta gráu ofan á svart fengu Leiknismenn vítaspyrnu um miðjan seinni hálfleik. Markaskorarinn fór á punktinn en Villi sá við honum. Þetta gaf manni ástæðu til þess að fanga aðeins og þarna fékk maður einhverja von um að þetta myndi hjálpa liðinu áfram og jafna þetta. Það reyndar gjörsamlega trylltist allt þegar hann varði þetta hann Villi. Geggjað. Besta atvik leiksins, klárlega.

 

Ekkert var að frétta. Við settum Sæma, Martein, Stebba Páls og fleiri menn inn á en ekkert gekk. Við fengum hátt í 10 hornspyrnur eða eitthvað alveg í lokin á uppbótartímanum en við náðum ekki að nýta okkur eina sem er bara rannsóknarefni. Mjög pirrandi leikur að tapa og þá sérstaklega á þessum velli gegn þessu liði. En það er ótrúlega margt jákvætt sem er hægt að taka út úr þessu.

 

Eftir lokaflautið fögnuðu væntanlega Leiknismenn gífurlega mikið. En það sem stóð upp úr hjá mér var að það heyrðist meira í ÍR-ingunum eftir leik að syngja og klappa fyrir liðinu sínu. Stuðningurinn hefur verið stórmagnaður í byrjun móts og þessi leikur klárlega toppurinn til þessa. Magnað. Gæsahúðadæmi.

 

Sveitin mín heitir Breiðholt ómaði í tækjunum í efra Breiðholti eftir leik sem var klárlega vel gert hjá Leikni að spila fyrir og eftir leik. Maður hugsaði lengi vel eftir leik um þennan leik og þessa stemningu í kringum leikinn hjá báðum liðum og stuðningsmönnum. Þrátt fyrir að leikurinn hafi verið hræðilegur er allt annaði í kringum hann sem við ÍR-ingar getum tekið með okkur áfram og nýtt okkur. Þessi orka og trú sem er hjá stuðningsmönnunum. Að vera nýbúnir að tapa á móti erkifjendunum á svona hátt eftir þennan lokakafla en samt standa upp, klappa, syngja, bíða eftir liðinu og sýna leikmönnunum þá virðingu sem þeir eiga skilið. Bestu stuðningsmenn landsins og það er bara nákvæmlega þannig. Það getur ekkert toppað þessa stuðningsmenn!

 

ÁFRAM ÍR!

Haukur Gunnarsson tók þessar myndir.

Teknar af fótbolti.net